Ég er búin að ætla gera nýtt blogg í margar vikur en loksins núna læt ég verða af því.
Síðast þegar ég bloggaði í janúar þá vorum við að kynnast nýju stuðningsfjölskyldunni hans Ólivers Viktors og það var sko alveg satt sem ég sagði síðast þau eru ÆÐISLEG og eru orðin mun meira en stuðningsfjölskylda.
Þau eru orðin partur af okkar lífi og ekki bara í tengslum við Óliver Viktor heldur dýrka hin börnin okkar þau líka, þau eru eiginlega eins og amma og afi 🙂 Við gætum hreinlega ekki verið án þeirra og þau hafa hjálpað okkur meira en flestir!
Við erum alveg ótrúlega þakklát fyrir þau 🙂
Óliver Viktor er ennþá á því að þola ekki litla bróður sinn og er ástand heimilisins að verða mjög þungt vegna þess.
Þeir vilja báðir mömmu sína og rífast um mig flesta daga og köstin hans Ólivers verða tíðari og harðari oftast tengt litla bróður sínum. Þetta er vægast sagt orðin mjög lýjandi sérstaklega fyrir mömmuna þar sem þeir eru límdir við rassinn á mér alla daga allann daginn að keppast um athygli.
Óliver Viktor heldur í mig nánast allann daginn og ég get ekki farið á efri hæð hússins án þess að hann taki kast og þá er það alveg klukkutímakast sem veldur því að ég er hætt að hreyfa mig og skipulegg allt sem ég þarf að gera uppi eftir hans þörfum, ef ég þarf á klósett, sturtu, taka til uppi eða eitthvað annað þá þarf ég að reikna út að gera þetta allt saman þegar hann er ekki heima eða sér til mín svo það verði ekki allt vitlaus.
Ég held ég þurfi ekki að taka það fram en geðheilsan er ekki góð og pirringurinn á heimilinu sem skapast af þessu öllu saman er alveg í hámarki.
Hann tók svona tímbil eftir að Baltasar Kasper fæddist en er aftur orðinn svona núna og búinn að láta svona í sennilega að verða þrjá mánuði.
Baltasar Kasper á móti er orðinn mjög taugaveiklaður og stressaður í hvert sinn sem hann heyrir bróður sinn öskra gæti hann átt von að barsmiðum og þá hleypur hann í fangið á mér og þá byrjar vítahringurinn aftur því þá verður Óliver reiður. Ég held ég geti ómögulega líst því nægilega í orðum hverskonar stríðsástand skapast á heimilinu okkar þegar allt er svona og svo ég tali nú ekki um að þriðja barnið hún Erika mín verður svoldið útundan frá mér. Myndi vilja meiri tíma með henni sem ég reyndar fæ aðeins núna í sumarfrínu hennar sem er jákvætt !
En jákvæðar fréttir eru þær að Óliver Viktor er farinn að kúka í klósett svona oft ekki alltaf en oft og ekki bara heima heldur líka í leiksskólanum og hjá Brúnuhlíð sem er algjörlega frábært og vonandi er það eitthvað sem er komið til að vera og hann geti bara losað sig alfarið við bleyjuna.
Svefnástand heimilisins er hrikalegt líka þar sem Óliver sefur sirka eina heila nótt á viku og það með hjálp lyfja en svona oftast vaknar hann milli 3 og 4 og vakir þar til allir mæta í skóla og vinnu…. verður svo hrikalega úrillur seinnipartinn vegna þreytu.
En svo líka er hann hættur að vilja sofa einn þannig að hann sefur yfirleitt upp í hjónarúmi hjá mér og Egill inni hjá Eriku svona ef Baltasar skyldi vakna sem er að gerast ansi oft….
Við höfum alltaf verið svona nokkuð dugleg við að ögra honum að koma úr skelinni sinni reyna draga hann út til að hann verði ekki alveg fastur inni. Það gerum við með því að draga hann út, sund, róló, heimsóknir og búðir þetta er allt saman sem reynir gríðarlega á hann og honum þykir ekki auðvelt.
Enn undanfarið hefur þetta verið að reynast erfiðara en venjulega til að mynda er hann hættur að vilja fara í sund, hann vill ekki lengur fara inn í ísbúðir til að borða ís vill bara vera út í bíl. Hann neitar líka að fara inn í sjoppur til að borða kannski eina pyslu hann vill bara vera út í bíl. Þetta segir sig sjálft að gerir okkar líf töluvert erfiðara því það sem flestir telja sjálfsagt að fara á kaffihús labba í bænum eða fara í ísbúð er orðið það erfitt fyrir okkar mann að hann er hættur að geta það í bili í það minnsta.
Við reynum auðvitað alltaf aftur en þvi miður gengur það ekki ennþá en við gefumst ekki upp og vonandi bráðlega getum við t.d. farið í sund með hann aftur.
Óliver Viktor fór í sinn fyrsta tannlækna tíma um daginn.. en það er sérfræðingur að sunnan sem kemur að skoða hann. Hann er sérfræðingur í börnum með einhverfu t.d. Hann var alveg ótrúlegur með Óliver og náði til hans rosalega vel allavega nógu vel til að hann fengið að skoða hann. Tannlæknirinn fékk hann auðvitað ekki til að vera í stólnum en Óliver sat í fanginu á honum og fékk að kíkja upp í hann.
En fái Óliver Viktor skemmd þá verðum við að láta svæfa hann til þess að láta laga það… já svæfa barnið mitt þegar hann fer til tannlæknis !
Já veruleiki okkar er svo langt því frá að vera eins og hjá flestum og fæstir held ég geri sér grein fyrir því hversu mikið öðruvísi við erum það er hver dagur átök þessa dagana… maður er alltaf þreyttur og oftast pirraður og á litla aukaorku í eitthvað annað. Enn við vitum alltaf að þetta eru tímabil sem ganga yfir og það auðvitað fleytir okkur áfram en hvað það verður langt er ekki nokkur leið til að vita eða hversu erfitt.
Óliver Viktor okkar er samt ofsalega ljúfur hann er oft glaður og hann er ÁVALLT gullfallegur hann verður sko bara sætari og fallegri þessi ungi maður okkar.
Það er ekkert sem ég myndi gera til að breyta einu né neinu því sama hversu erfitt þá elska ég hann held ég heitar en nokkuð annað fyrir utan systkyni hans en hann er klárlega gulldrengurinn minn og verður það alltaf.
Hann er ofsalega klár og gengur vel í verkefnum í leiksskólanum svona ofast hann er líka mikil félagsvera á sínum forsendum og er rosalegur sjarmur. Hann til að mynda á nokkrar vinkonur á leiksskólanum sem “nenna” að leika við hann sem er alveg yndislegt því það er því miður orðið þannig að hann er að verða mikið útundan og vill auðvitað mun meira en hann getur gert eða fengið. Hann vill eiga vini maður sér það en kann ekki að tjá sig og krökkum finnst hann bara skrítinn og ógnandi og ég lái þeim það svo sem ekki því hann getur verið það.
Systir hans er þó ennþá mjög dugleg að leika við hann og hann elskar hana út af lífinu 🙂
Sumarið verður strembið … við vitum það en afi og amma í brúnuhlíð verða með hann allavega viku af sumarfríinu þannig að það mun sko hjálpa þá getum við kannski farið í smá “frí” með hin krúttin því við höfum tekið þá ákvörðun að fara ekkert með Óliver Viktor í bili ekki suður eða útilegur eða neitt… hann er ekki vel upplagður í svoleiðis þetta sumarið og ekki hægt að leggja það á systkyni hans.
En við erum dugleg að skipta okkur niður hérna heima ég í sund með Baltasar og Eriku meðan Egill er með Óliver. Eða öfugt Egill með hin tvö og ég Óliver… við reynum að vera sem minnst saman meðan staðan er svona sem er samt alveg rosalega erfitt og tekur á öll fjölskyldubönd og hjónabandið!
Óliver er líka greinilega orðinn mun viðkvæmari fyrir áreiti og hljóðum því hann er með eyrnatólin sín á sér allann daginn alla daga og sefur líka með þau… það sem ég reyndar finn til með honum með það að það sé endalaust áreiti í umhverfinu sem lætur manni líða illa… væri til í að pakka honum bara inn í bómul ef það væri hægt.
Sólrún kemur til okkar tvisvar í viku sem hjálpar mikið meira en hún gerir sér grein fyrir.. því þá hefur hún oft tekið Baltasar og Eriku og farið með þau út að labba meðan ég og Óliver Viktor slöppum af heima og þá eigum við smá tíma bara tvö án litla bróðurs. Svo hjálpar hún til við matinn líka gefur Baltasar og Eriku að borða meðan maður reynir að berjast við að koma einum til tveimur munnbitum upp í Gulldrenginn.
Hann er orðinn mjög slæmur í því að borða og mun einhæfari en áður undirstaðan af hans matarræði eru eiginlega bara pylsur, franskar og kex/snakk… já frábær næring.
Já jæja núna held ég að það sé komið nóg í bili enda búin að léttast um tonn að koma þessu öllu frá mér 🙂
Reyni að henda inn færslu bráðlega aftur þar til næst hafið það gott 🙂
Bestu kveðjur Katrín
Við erum hér ef þið viljið ❤
Þið eruð svo miklar hetjur, dáist að ykkur :*