– Okkar reynsla af stuðningsfjölskyldu.

Óliver Viktor er með stuðningsfjölskyldu sem byrjaði með hann á síðasta ári.

En okkur var bent á að leita eftir stuðningsfjölskyldu vegna álags heima við til þess líka að geta fókusað almennilega og einungis á hin börnin, til að byrja með var það bara Erika Rakel og henni veitti ekki af tímanum með mömmu og pabba.

En fyrst og fremst var þetta líka hvíld fyrir Óliver Viktor frá heimilinu, frá okkur og þarna þegar hann fer til stuðningsfjölskyldunnar þá er hann eina barnið og því nýtur óskiptrar athygli.

Í fyrstu þegar okkur var bent á þetta þá hugsaði ég með mér aldrei, Egill sagði líka við mig kemur ekki til greina að við förum að senda hann eitthvað annað yfir nótt. Þannig að í fyrstu vorum við alveg sammála um þetta fyrir utan að þegar það var byrjað að tala um þetta var drengurinn var 2 og hálfs árs og hafði aldrei farið frá okkur yfir nótt.

Eftir að hafa velt þessu fyrir okkur í nokkrar vikur og rætt málin, þá ákvaðum við að setja inn umsókn þar sem okkur var sagt að það tæki alltaf svo langan tíma að finna fjölskyldur þannig að það myndi ekkert saka að geyma umsókn þarna fyrir hann og nú svo höfðum við alltaf valið þeas við máttum alveg neita ef það var það sem við vildum.

Þegar á tímann leið og elsku drengurinn fór að krefjast meira og meira af okkur, sáum við að við þyrftum á þessu að halda sérstaklega til þess að sinna hinu barninu okkar (sem þá var bara eitt) því við sáum alltaf meir og meir hversu mikil áhrif þetta hafði á hana. Eins vorum við bæði í námi og vinnu og álagið á heimilið var orðið töluvert mikið.

Um vorið 2013 var svo hringt í okkur og okkur sagt að það væri hugsanlega komin fjölskylda fyrir Óliver Viktor, við samþykktum að hitta hana og skoða málin, eftir að símtalinu lauk þá lagðist ég í sófann og grét. Þvílík móðir sem ég er að fara planta barninu mínu sem er rétt að verða þriggja ára inn á annað heimili til þess að fá “frí”. Að ég skuli voga mér að hugsa þannig að barnið mitt sé mér of mikil byrði og ég ráði ekki við hann sjálf… – þetta voru allt saman hugsanir sem komu upp í huga minn og ég átti mjög erftt með að meðtaka þetta allt saman og ná sátt við sjálfa mig.

Það er auðvelt að hugsa þetta er ekkert mál en raunin er önnur, sérstaklega þar sem hann talar ekkert svo ég get aldrei spurt hann hvað hann vill eða hvort það sé gaman, hvort honum líði vel og þar frameftir götunum.

En við ákváðum að fara hitta stuðningsfjölskylduna og leist okkur rosaleg vel á hana, svo það var ákveðið að byrja í aðlögun og hafa aðlögunin eins langa og við og Óliver Viktor þurftum.

Einnig átti hann ekkert að vera skilinn eftir í fyrstu og ekki fara yfir nótt fyrr en við værum tilbúin .

Allt sumarið fór í aðlögun og gekk afskaplega vel svo í september þá var ákveðið að fara purfa byrja að skilja hann eftir og svo fara gista.

Mömmuhjartað var ofsalega viðkvæmt þarna og fannst þetta hrikalega erfitt en hvað ég er glöð að ég ákvað að slá til því þetta er dásamlegt. Hann er núna búinn að vera fara eina helgi í mánuði og það sem hann er hamingjusamur og hvað fjölskyldan er dásamleg við gætum sennilega ekki verið mikið heppnari með það. Að auki gefur þetta okkur tíma til að sinna betur hinum krílunum og það er dásamlegt líka.

Svo ég hiklaust mæli með því að fólk í þessum aðstæðum leiti eftir aðstoð sem þessari.

– Katrín Mörk