Óliver Viktor er fæddur 08.09.10 og er annað barn okkar foreldra, hann á tvö systkyni Eriku Rakel fædd 2008 og Baltasar Kasper fæddur 2013.
Meðganga Ólivers Viktors gekk ágætlega, ég fékk snemma grindargliðnun og þjáðist einnig af meðgönguþunglyndi en að öllu öðru leyti gekk vel. Læknar og ljósmæður áttuðu sig þó snemma á því að það væri von á stóru barni þar sem kúlan á mér var langt yfir meðal, ég var send í sykursýkistest sem reyndist neikvætt. Það var því ákveðið að setja mig af stað 39v en þar sem ég var farin að malla sjálf af stað þurfti ekki að gera neitt nema sprengja belginn og þá fór þetta af stað. Fæðingin gekk ágætlega, ég þurfti að fá bæði dripp og mænudeyfingu og tók útvíkkunartímabilið frekar langa stund. Þegar það kom að rembingnum var það þó ekki nema korter og þá var fallegi drengurinn mættur, and what a boy!
Hann var 5125gr eða 20 og 1/2 merkur, 56 cm og með 39cm í höfuðmál sem sagt stór og stæðilegur drengur. Það kom þó í ljós að vegna stærðar hafði hann viðbeinsbrotnað í fæðingunni, en því miður kom það ekki í ljós fyrr en í 5 daga skoðun. Hann var þó ekki mikið að kippa sér upp við þetta og var þetta gróið 6-8vikum seinna.
Allt ferlið fyrstu daga var nokkuð eðlilegt, hann dafnaði vel, fékk litla sem enga gulu, tók brjóst og svaf vel. Eftir fyrsta mánuðinn fór hann að verða órólegur en þá kom í ljós að hann væri með bakflæði og fékk hann lyf við því sem breytti öllu til hins betra og hann fór að sofa aftur vel.
Óliver Viktor þroskaðist eðlilega og í öllum skoðunum í ungbarnaeftirlitinu stóð hann sig vel og aldrei kom neitt óeðlilegt út. Hann var á brjósti til 5 og 1/2 mánaða en þá var hann farinn að borða graut og fá þurrmjólk í pela. Hann þótti rosalega rólegt og gott barn, hann var ekki að drífa sig var seinni til að velta sér og fara sitja en til dæmis systir sín en þó allt innan eðlilegra marka og hjúkkurnar í ungbarnaeftirlitinu sögðu ekkert óeðlilegt við það. Hann var rosa glaður og brosmildur, þegar hann varð 5 mánaða fékk hann hlaupabóluna og varð ofsalega veikur með 40 stiga hita og mikið af bólum. Það tók ca. 10 daga að komast yfir það versta og hann stóð sig eins og hetja í gegnum það. Hann fékk stuttu seinna eða ca. 6-7 mánaða vott af RS vírusnum en varð þó ekkert alvarlega veikur. Óliver Viktor fór í sína fyrstu svæfingu 8 mánaða en þá fékk hann rör í eyrun og var tekinn auka húðflipi hjá eyra sem hann fæddist með. Eftir það hefur hann ekki fengið í eyrun einu sinni.
Hann byrjaðu að skríða um 8 mánaða og um 10 mánaða var hann farinn að mynda orð : mama, baba, datt voru þrjú orðin sem komin voru og ennþá var allt eðlilegt hvað varðar skoðanir í ungbarnaeftirliti hann dafnaði vel, fylgdi sinni kúrfu og fylgi öllum þessu stöðlum sem þau eiga að fylgja. Fljótlega eftir eins árs afmælið hans fór hann að verða voða vælinn svona 14-15 mánaða þá var hann mikill mömmustrákur og mátti hvergi af mér sjá og dundaði sér ekki mikið einn einnig fannst mér ég ná litlu augnsambandi við hann og fannst hann svoldið týndur. Við foreldrar hans sáum strax að ekki var allt sem skyldi og vildum leita eftir aðstoð frá fagfólki, þarna grunaði okkur að um einhverfu væri að ræða.
18 mánaða var hann hættur að tala alveg og bablaði lítið sem ekkert, myndaði engin ný hljóð þegar hann fór í 18 mánaða skoðunina var strax gefið tilkynna að eitthvað væri að og okkur bent að fara með hann til talkennara og láta meta hann eins átti að athuga með heyrnina í honum. Við fórum með hann til talkennara sem sagði segir okkur að það sé nú lítið hægt að meta með talið þar sem hann væri svo ungur en benti okkur á að fara með hann í skoðun hvað heyrn varðar. Hún sagði þó þarna að málþroski hans væri á við 10 mánaða gamalt barn. Við pöntuðum tíma þá hjá barnalækni hérna á akureyri sem sendi tilvísun í heyrnamælingar og skoðanir suður og í þroskamat hjá fjölskyldudeild. Hún vildi einnig senda hann í litningapróf og skoða heilastarfsemi sem krafðist þess að hann færi í svæfingu. Það var voðalega erfitt að fara með litla stubbinn sinn í svæfingu þarna er hann eitthvað í kringum 20 mánaða. Allt kom þó eðlilegt út úr þessum prófum. Við fórum með hann um sumarið suður í eyrnamælingar og eins voru skoðanir hérna fyrir norðan gerðar og allt kom eðlilega út. Við gengum á milli sérfræðinga hvað heyrna varða og þarna vorum við alveg sjálf handviss um að barnið væri einhverft. Að lokum var gert þroskamat hjá fjölskyldudeild og strax eftir heimsóknina sáum við að hann væri einhverfur þótt þarna væri greiningin ekki komin þá bara sáum við það í prófunum það leyndi sér ekki. Hann byrjar þarna á leiksskóla stuttu seinna og fer strax í prógramm fyrir einhverfa þó ekki sé komin greining. Leiksskólinn vildi allt fyrir hann gera og fékk hann strax stuðning, frá byrjun var hann með manninn með sér,kennari sem fylgdu honum allan daginn.
Óliver Viktor verður svo 2 ára í september og í október kemur sérfræðingur frá greiningarstöðinni til þess að meta hann, yfirleitt eru börnin send suður í vikuprógramm til þess að gera þess til gerð próf og þroskamat. Við áttum því alveg von á því að við yrðum send suður með hann þegar það væri búið að meta hann hérna fyrir norðan, en þegar sérfræðingur frá greiningarstöðinni var búin að hitta hann sagði hún okkur að það væri alveg óþarfi fyrir okkur að fara suður, það leyndi sér svo sannarlega ekki að drengurinn væri einhverfur!
Við sluppum því við það að fara suður þrátt fyrir að í hjarta mínu langaði mig svo innilega að hún segði við mig „þið þurfið að fara suður“ vegna þess að þá væri smá möguleiki að þetta væri ekki rétt að barnið mitt væri mögulega bara seint til. En það var þó ekki við fáum bréf sent frá greiningarstöð fyrir áramót þar sem stendur að fallegi drengurinn okkar sé einhverfur og formlega kominn með greiningu.
Recent Comments