Það er erfitt að koma orðum á blað, ég finn að ég erfitt með að tjá mig skriflega um Óliver Viktor og finn að ýmsar tilfinningar vakna við það. Það er kannski þess vegna sem það er svo nauðsynlegt.

Ég fór á námskeið PECS og svo munum við Egill fara á framhaldsnámskeið bæði núna í mars. Að auki fóru allir þeir sem hann annast á leiksskólanum á þetta námskeið en núna loksins sé ég mögulega leið fyrir elsku barnið að tjá sig og þá vonandi að skapofsaköstin hans minnki.

Þetta gengur út á það að kenna honum að tjá sig myndrænt og þá getur hann látið vita hvað það er sem hann vill og vill ekki. Ég vona svo innilega að þetta gangi upp og hann taki vel við þessu. Ef þetta er gert rétt og vel þá mun þetta ganga ég veit það.

Það er svo sannarlega búið að sýna sig upp á síðkastið hvað fallegi drengurinn minn þarf að fara ná að tjá sig, hann er farinn að verða mikið meira reiður og tekur því þann pólinn í hæðina að lemja.

Hann er mjög sterkur svo það er alls ekkert grín að fá högg frá honum og á fundi í leiksskólanum um daginn komst ég að því að börnin á deildinni hans eru flest hrædd við hann… skiljanlega en mikið sem það var erfitt fyrir mömmuhjartað að heyra að elsku litli mömmuljúfur sé farinn að hræða börn og suma fullorðna.  Þetta segir mér hvað það er nauðsynlegt að hann fái mál STRAX hann verður að fá leið til að tjá sig því ef þú setur þig í hans spor og veist alltaf hvað þú vilt eða hvað þú vilt ekki en allir aðrir skilja þig ekki og tala bara framhjá þér hvernig liði þér ?!

Við fórum til læknis með hann, það er sérstakur sérfræðingur sem annast einhverf börn fyrir sunnan sem hefur komið norður að hitta á hann, hann bauð okkur lyf síðast þegar hann hitti hann og við þvertókum fyrir það. Bæði lyf sem áttu að róa hann svo skapköstin yrðu ekki eins mikil og etv lyf líka við „ofvirkninni“ í honum og svo lyf til að hjálpa honum að sofa.

Lyf, ég er ekki aðdáandi þeirra hvorki ég né pabbi hans en í tímanum hjá lækninum í fyrradag heyrði ég sjálfa mig spyrja út í þessi lyf. Hann er ekki komin á þau en það verið að skoða þetta allt saman, svo kemur fólk til manns og lætur mann vita að það sé nú ekkert að því að fá lyf til þess að hjálpa honum og róa hann og láta hann hætta þessum köstum/látum.. sem sagt lyf sem fá hann til að vera ekki hann lengur því mín kenning er sú að um leið og barnið lærir að tjá sig þá minnkar allur ofsinn um 50%

En það er bara orðið ofsalega erfitt að vera með hann hérna heima við sérstaklega þar sem hann þarf að deila athyglinni með systkynum og húsverkum. Ég er með þau þrjú ein í tvo tíma á dag og það er mikil keyrsla því hann má ekkert af manni sjá þá verður hann alveg vitlaus og kastið byrjar og tekur enda þegar pabbi hans kemur heim. Hvað með það þótt hann taki kast ? tja það er bara hrikalega mikið mál því köstin hans eru ekki þannig að hann liggi í gólfinu og gráti NEI þvert á móti hann lemur mann aftur á bak og áfram á meðan á þeim stendur og öskrar þannig að hin börnin á heimilinu verða hálfsmeyk. Þannig að já maður reynir hvað maður getur til þess að komast hjá svona köstum hvort sem það er að múta honum með nammi og alltaf fær hann forgang í að horfa á það sem hann vill, aðrir bíða. Þetta er auðvitað ekki sanngjarnt en því miður þarf það að vera svoleiðis.

Ég bindi miklar vonir við að Pecsið muni virka fyrir hann og þá hugsanlega verða öllum til góða.

Ég get ekki ímyndað mér hvað þetta er allt saman erfitt fyrir hann og hversu oft hann fær ekki það sem hann vill ekki vegna þess að hann má það ekki heldur vegna þess að hann getur ekki TALAÐ eða sagt það á neinn hátt… t.d. mamma nenniru að lækka í sjónvarpinu eða nei mig langar í vatn í staðinn fyrir appelsínudjús. Einfaldir hlutir sem þessir eru bara alls ekki einfaldir og ég sé oft á fólki sem er að umgangast hann mikið og ég veit að vill honum allt vel en það verður þreytt á honum hann er kannski alltaf að biðja það um það sama en málið er að hann biður um alveg þar til maður gerir rétta hlutinn eða hann hreinlega gefst upp… því þarf að sýna honum extra mikla þolinmæði og ég veit manna best hvað það getur verði erfitt sér í lagi þar sem ég er ekki þolinmóð en hann á það skilið !

535669_304533862958840_454096255_n