Óliver Viktor er búinn að eiga mjög erfitt með svefn undanfarið, hann er virðist vera afskaplega hræddur á nóttunni, svo hann sefur ekki einn og ef hann sefur einn þá sefur hann frammi svo hann sé í opnu rými. Ef hann er látinn sofa einn vaknar hann dauðskelkaður á nóttunni og hleypur inn til mömmu og pabba.
Hann er farinn að gera margt nýtt, ný hljóð, nýjar danshreyfingar og vinkar bless eftir óskum, sem gleður mann óendanlega. Allir litlu hlutirnir gleðja mann eins og það að hann er búinn að læra fara sjálfur úr skónnum í forstofunni það var dásamlegt ! Eins er hann farinn að vilja sofa með bangsa kannski vegna þess að hann er hræddur en það er alveg yndislegt að horfa á hann ná í þá og knúsa þessi engill sem sá engann tilgang með þessum böngsum!
Það er búið að vera samt eitthvað sem hvílir á honum hvað það er veit enginn, en hann þarf mikið að vera í fanginu á okkur og það má lítið út af bera þá er hann orðinn reiður eða dapur, vill helst ekkert sjá af okkur. Hann er alveg hefur extra litla þolinmæði og vill helst ekki að við séum neitt að sinnan neinu eða neinum öðrum en honum. Elsku kallinn en það er auðvitað ekki í boði og hann veit það en það var ákveðið vegna margra ástæða t.d. þessu að auka stuðninginn sem sagt dásamlega stuðningsfjölskyldan hans tekur hann núna tvo daga í viku líka í þrjá tíma í senn. Þetta hefur bara komið mjög vel út, þessa daga fær hann óspillta athygli frá þeim og við getum sinnt öðru sem þarf að sinna og notið tímans enn betur með hinum börnunum. Hann kemur svo bara heim eftir kvöldmatinn og svona nánast tilbúinn í rúmið 🙂
Vonandi að honum fari að líða betur og það sem er að angra hann hætti eða leysist hvernig sem er ♥
Við fórum núna í síðustu viku á framhaldsnámskeiðið í Pecs og þar með er því lokið og þá er ekkert annað eftir en að byrja á þessu, við munum funda með leiksskólanum fyrst og svo byrja og óskandi að þetta gangi allt saman upp vel. Því er ekki að neita að það er kvíði í manni, mun þetta ganga vel ? verður þetta til þess að hjálpa honum ? ef þetta gengur ekki hvað þá ? Ýmsar spurningar sem vakna en jafnframt mikill spenningur að byrja og sjá hvernig allt saman mun falla (vonandi) saman.
Óliver Viktor er einnig farinn að sýna litla bróður meiri áhuga og virðist hægt og rólega vera taka hann í sátt sem er auðvitað ekkert nema gleðilegt hann stundum tekur utan um hann og knúsar þegar við sýnum honum stubbinn sem gleður hjartaræturnar mikið.
Við verðum bara að vera bjartsýn og það er bara þannig að bjartir tímar eru framundan og hann mun vonandi blómstra og læra PECS vel 🙂
Hræðslan er þó ekki bara hans, ég finn á hverjum degi að kvíðinn eykst og allar breytingar eru farnar að hræða mig meira og meira já eða okkur foreldrana, þegar maður er tekinn út úr sínu örugga umhverfi með hann og það þarf að fara gera aðrar ráðstafanir þá finn ég hvernig óttinn læðist upp að manni og svo BÚMM skellur maður hálflamaður í niður í eitthvað volæði og sér enga leið út, sumarhugsanir eru farnar að koma já yfirleitt er fólk að hlakka til sumarsins og það var eitt sinn ég líka en núna finn ég bara hvað ég vona að það líði hratt og rútínuleysið gangi ekki frá elsku molanum mínum og að maður eyðileggi ekki of margar væntingar. Fólk sem vill að maður mæti hingað og þangað, þetta afmæli, ættarmót, útilegur og þetta allt saman. Síðasta sumar var eitt það erfiðasta sem ég held ég hafi upplifað og ekki vissi ég að “frí” gæti verið svona strembið.
En núna er ætlunin bara að vera róleg, skipuleggja okkur vel og hafa solid áætlun og hugsanlega bara vera mikið heima fyrir kannski bara fara í eina útilegu en ekki þrjár 🙂
Ekki að leggja of mikið á lítinn kropp enda alveg hægt að njóta sumarsins á heimavelli 🙂 Njóta bara dagsins sem er að líða og reyna að hafa ekki áhyggjur fyrirfram 🙂
Bestu kveðjur
Katrín
<3 vonum bara að hann læri fljótt á PECS og við hin líka, (þarft að taka ömmuna og afann á námskeið) <3